Vakna til vitundar í augnablikinu.
Mig langar að deila með ykkur einu sem hefur gefið mér mikið og er hálf mistískt í mínu lífi.
Ég veit ekki nákvæmlega hvaðan þetta byrjaði en ég lenti oft í því að þurfa að bíða eftir fólki þegar ég var eini strákurinn með aðgang að bíl. Tíu, tuttugu mínútur kannski.
Þá byrjaði ég að hugleiða… Anda inn… Anda út… Draga vitundina inn á við. Inn í líkamann. Inn í augnablikið, núið. Og svo komu þessar þrjár spurningar til mín ein af öðrum. „Hver ertu?“, „Hvar ertu?“, „Hvað ertu að gera?“
Svo fylgdist ég með hvernig hugurinn minn svaraði þessu, án þess að grípa neinar hugsanir, eins og að horfa á gáfurnar dreifast í tjörn eftir að steini var kastað.
Þegar ég geri þetta þá er það ekki þannig að það sé eitthvert markmið með þessu, ég býst ekki við neinni útkomu sérstaklega. En eftir að hafa gert þetta reglulega í rúma tvo áratugi þá er ýmislegt sem ég hef tekið eftir út frá þessu.
Eitt er hvað allt breytist, hver ég er, hvernig ég sé sjálfan mig, hvernig ég sé heiminn. Ekkert af þessu varir að eilífu. Gott og slæmt allt líður yfir og rennur gegnum greipar manns þannig það þýðir lítið að reyna að hanga í því sem er liðið. Það eina sem er er núið og það er alltaf að breytast. Einu sinni, í samtali við sjálfan mig á löngu erfiðu tímabili, þá benti ég á að ég væri að þjást og að þjáningin var búin að vara lengi og að svo leit út sem að hún mundi fylgja mér áfram inn í framtíðina. Varanleg vanlíðan. Hún var mjög sannfærandi, en ég sá í gegnum hana. Það var ekki það að þjáningin væri varanleg heldur að orsök vanlíðunarinnar var að lita hvert augnablik með depurð. Orsökin var viðhorf mitt gagnvart kringumstæðunum sem ég var í. Út frá því spratt sjálfsvorkunn og aðrar tilfinningar sem sköpuðu neikvæðar hugsanir.
<hugsanir verða að orðum, orð verða að gjörðum, það sem við gerum verður að ávana og ávanar leiða hugsanir>
Þetta leiddi til þess að ég gat klippt á þessa hringrás, yfirgefið þetta leiðinda, niðurdrepandi svæði og beint huganum að jákvæðara flæði.
Þetta virkar ekki alltaf. Oft þarf ég að fara í gegnum sársaukaferlið til að finna betri stað.
Annað sem kom út úr þessum hugleiðslum var skemmtilegur ávani að kalla vitundina inn á við og sjá mig utan frá. Mín útgáfa af spurningunum þremur. Hver, hvar og hvað. Svo fylgdist ég með svarinu á óhlutlægan hátt. Það gerði mér kleift að sjá húmorinn í kringumstæðunum.
En nóg um þetta í bili. Ég get endalaust hugsað um þetta málefni.
Vona að þið hafið það ljúft.
Ást og friður.