Blog #4 - Week 9

Blogg #3 - Vika 9

Að henda sér út í óttann.

Ég er staddur á spa hóteli 3 tíma suður af Lisbon í Portúgal. Við erum búin að vera á ferðinni í rétt rúma viku. Ég finn þegar töluvert til í líkamanum og velti reglulega fyrir mér hvað ég er að gera hérna í burtu frá öllum þægindum sem fylgja öryggisrammanum mínum heima fyrir.

Svarið er ekki skýrt, en ég ætla að reyna að skoða þetta hérna með ykkur.
Fyrsta sem kemur til hugar er bara ævintýra þráin, að fara á staði sem ég hef aldrei verið, að smakka og sjá framandi hluti sem geta mögulega útvíkkað heiminn fyrir mér. Mér verður hugsað til gömlu ‘Dune’ myndarinnar þar sem leiðandi setning er “Án breytinga sefur eitthvað innra með okkur og sjaldan vaknar, Svefnpurkan verður að vakna!”. Hljómar betur á upprunalega málinu en innihaldið hefur veitt mér innblástur og stefnu frá unglingsaldri. Að hverfa frá hinu þekkta, örugga og fyrirsjáanlega umhverfi og kastast út í heim. Jafnt til að upplifa hið ytra sem og að upplifa hvernig maður breytist sjálfur, uppgvötvar nýjar útgáfur af okkur sjálfum, útgáfur sem búa yfir öðruvísi þankagangi og geðlund sem stundum eru ákjósanlegar fram yfir þessa gömlu sem maður situr í vananum heima. Það er áskorun að halda í nýja sjálfið þegar aður er svo kominn aftur heim, en oft er nóg að sjá og upplifa að það er möguleiki á öðru betra sjálfi og þá kemur þetta með tímanum.



Annar vinkill getur líka verið þörf mín til að takast á við óttann. Eitt sem ég upplifði við að missa máttinn og verða bjargarlaus var að heimurinn varð mun meira ógnvekjandi en hann hafði áður verið. Ég hafði upplifað sjalfan mig færan um að bjarga mér úr alls kyns háska sem ungur maður. En nú fann ég mig í veikburða líkama og með öllu háður öðrum fyrir mína tilveru. Í fyrstu þorði ég ekki út úr húsi nema tilneyddur. Heimurinn sem hafði áður verið mér gal opinn smækkaði niður í litlu íbúðina á Vesturgötunni.
En svo fór ég að hætta mér út og byrjaði að læra að þiggja og treysta á hjálp frá fólki sem ég hitti á förnum vegi. Hápunktur var þegar við mamma vorum að ferðast um Galapagos og ákváðum að reyna að komast á merkilega strönd sem er oft sögð sú fegursta í heiminum, en vegurinn þangað lá upp 30 m klett með bröttum tröppum upp. Við höfum beðið minna en korter þegar tveir ungir herramenn frá Ekvador buðust til að halda á mér upp, það hafðist. Ég fékk að sjá þessa undurfögru strönd og herramennirnir tveir fengu að sýna sig fyrir kærustunum þeirra.

Síðan þá ef ég ferðast víða og séð margt. Ég hef lært að taka á móti óttanum sem fylgir óvissunni og bjóða hann velkominn. Því ég veit að þegar hann er mættur, þá bíða ævintýrin.



Við rúlluðum um grjót hlaðnar götur Lisbon í nokkra dag. Mikið af brekkum og hæðum, get ekki mælt með því fyrr fólk í hjólastól. En fólkið sem við mættum á götunni var vinalegt og hjálpsamt. Rene stóð sig hetjulega við að ýta mér og við létum reyna á þolmörk hálsvöðvanna minna til fulls. Á morgun kemur Ýmir og Daney og þá förum við í húsið sem við plönum að vera í i mánuð meðan ég geri mína lista gjörninginga og Ágústa fer að surfa áður en hún fer svo að syngja í Evróvisíón.

Nóg að sinni. Þangað til næst.

Aftur á bloggið