Velkomin á bloggið mitt, ég vona að þú njótir lestursins og hafir eitthvað gagn af.
Á þessu bloggi langar mig að segja frá öðrum huglægum ávana sem mér hefur fundist gagn af. Ég kalla það ‘Brandaþing’ eða ’Brassaráð’.
Þetta byrjaði þegar ég var unglingur og hefur vaxið og mótast mikið síðan. Það var maður sem ég get ómögulega munað hvað hét en hann var ung-eldri maður sem var merkilega hraustur og unglegur, svona maður sem lifði fyrirmyndarlífi þannig það sá utan á honum. Hann lýsti því hvernig hann stundaði það að ímynda sér bestu útgáfuna af sjálfum sér og að fókusa á að hlusta á þá rödd umfram allar hinar. Þetta fannst mér áhugavert.
Mín nálgun varð svo að ég ímyndaði mér sjálfan mig tíu ár fram í tímann, eins og ég yrði ef ég tæki allar réttar ákvarðanir þangað. Svo sá ég fyrir mér að ég mundi hitta þennan framtíðarmig. Það fyrsta sem gerðist var að +10 ára ég tók utan um mig og þakkaði mér fyrir að hætta að reykja, en ég var í því ferli þá. Þetta hafði mikil áhrif og auðveldaði mér að hætta. Á einhvern hátt gerði þetta líka það að verkum að ég var ekki lengur að hætta fyrir mig sjálfan, sem flæktist oft fyrir mér því ég var ekki alltaf með fókusinn á að vera góður við sjálfan mig. En þarna var ég núna með hagsmuni þessa framtíðarmanns á mínum herðum.
Ég átti nokkur spjöll við þennan vinarlega mann í gegnum árin og hann gat yfirleitt gefið mér góð ráð, sem gekk misvel að fylgja. Það gekk misvel af því það voru fleiri Brandar og brassar innra með mér að berjast um að stjórna huga mínum og líkama.
Ég kynntist ‘MetnaðarBrassa’ sem var skyldur ‘óöryggisBrandi’, svo hafði ‘FíkniBrandur’ mörg andlit og raddir sem höfðu mikil völd yfir mér á nokkrum tímabilum. ‘FíkniBrandur’ var útsjónarsamur og lunkinn við að leiða mig á staði sem ‘ SkammtímaBrandur’ var mjög kátur með en ‘LangtímaBrassi’ hefði frekar viljað sleppa.
Allar þessar raddir. Miskröfuharðar og skilningsríkar. Stöðugt að togast á og leiðast saman eftir ferlum sem ‘MeðvitundarBrassi’ sá ekki skýrt.
Ég prófaði að afneita og loka á sumar raddir eins og „FíkniBrand’ og „ÁstarsorgarBrand’ en það virkaði ekki. Þeir bara fylltu út og flæddu inn á aðra staði. „FíkniBrandur’ lærði td.d. að ef mér leið illa, þá var ég líklegri til að láta eftir og fá mér það sem löngunin girndist, þannig ég tók eftir að stundum þegar ég var ákveðinn í að fá mér ekki pizzu, kók, bjór, videógláp eða hvað það var að þá leið mér illa þangað til ég gaf eftir, þá kom líka ánægjan af eftirvæntingunni sem styrkti stöðu ‘ FíkniBrands’.
Þannig lærði ég að það er betra að leyfa öllum röddum að tala, að það er líklegra til árangurs og framfara að hlusta fyrst og svo ræða við raddirnar. Að leyfa „LangtímaBrassa“ að útskýra fyrir „FíkniBrandi“ af hverju heill kassi af súkkulaði væri slæm hugmynd. Oft varð til sátt um að fara aðra leið, til dæmis að fá mér frekar skeið af hunangi, eða aðra kosti með ákjósanlegri afleiðingar.
Ein hugleiðsla sem ég geri kalla ég sem sagt „Brandaþing“, þar byrja ég á því að anda inn… Anda út… og svo bjóða innri röddunum að tjá sig ein á fætur öðrum. Ég reyni að gefa hverri rödd ákveðið svigrúm en svo þagga ég niður í þeim svo aðrar komist að nema einhver þurfi sérstakan fókus á því augnabliki.
Sumar raddir eru hlédrægar og koma ekki fram nema að þær ákafari hljóðni. Oft eru þessar hlédrægu raddir mjög áhugaverðar og gefa innsýn sem vert er að fá.
Já, já, margt hægt að segja um þetta allt. Ekkert eitt rétt. Engin ein leið sem virkar alltaf. En með því að hlusta á sig með hlutleysi og kærleika, svo reyna að forgangsraða eftir því hvaða raddir eru líklegri til að leiða þangað sem förinni er heitið. Til framtíðar útgáfunnar sem við viljum verða.
Ást og friður!
Brassi og Brandur