Ég velti oft fyrir mér dauðanum, hinum endanlega og óhjákvæmilega niðurlagi lífsins sinfóníu. Hugleiðingar mínar veltast um núverandi athafnir mínar og að morgundeginum, næsta mánuði, næsta áratug og jafnvel óþekkjanlega sjóndeildarhringnum þrjátíu árum síðar. En mitt í slíkum víðfeðmum tímahugsunum kemur stundum upp dularfull en alvarleg hugsun: hvað ef þessu lýkur skyndilega á morgun?
Nú blasir við að ef ég vil eiga möguleika á að ganga á ný eða endurheimta verulega hreyfigetu þá mun ég þurfa að setja marga mánuði, líklegast nokkur ár, í að æfa með þvílíkum ákafa að það tekur yfir líf mitt. Álagið er slíkt að ég á erfitt með að einbeita mér og eins og núna er ég að skrifa þetta liggjandi uppi í rúmi að jafna mig eftir mikil átök í morgun og ég er að vona að ég verði búinn að jafna mig fyrir morgundaginn svo ég geti gert það aftur. Og á meðan ég er staðráðin og finn það innra með mér ég ætla að gera þetta, ég er búinn að taka ákvörðun, að þá er þarna rödd líka sem hvíslar. Hvað ef, hvað ef ég er að fara að deyja eftir sex mánuði? Er þetta það sem ég vil gera við líf mitt?
Nú held ég að þetta gæti hafa verið þáttur í því að ég tók mér þessa pásu frá æfingum núna um árið þar sem ég leyfði mér bara að njóta og ég naut heldur betur. Ég held að þetta fertugasta og annað ár ævi minnar sé eitt besta ár lífs míns hvað varðar hamingju mína.
Ég man að á meðan ég lá á spítalanum og hélt að ég væri að fara að deyja þá var ég samt að nýta tímann í að læra. Ég var á netkúrsum að læra um alls konar vísindi og mannkynssögu og fleira sem greip athygli mína. Ég velti fyrir mér af hverju ef ég héldi að ég væri bara að deyja, af hverju var ég þá að keppast við að fylla hausinn á mér af fróðleik.
Ég held það sé eitthvað svipað og núna, af hverju að æfa ef þessi líkami er ekki að fara að vera hérna það mikið lengur? Ég held að svarið sé bara bjartsýni. Ég kýs að ganga út frá því að ég finni einhverja leið í gegnum þetta, að allar áskoranir leysist, að öll veikindi hjaðni, að ég muni verða hundrað ára. Að ég geti lifað lífinu eins og ég hafði allan tímann í heiminum.
Þannig að ég held áfram að æfa af því að þannig kalla ég fram framtíðina sem ég vil.