15052024
Grafarvogur
Ég er ekki að standa mig í reglulegum skrifum hér. En ég er að skrifa mikið þessa dagana, mála mikið og æfa mikið. Nóg að gera fyrir huga, líkama og sál.
Ef sólin skín, þá keyri ég eitthvað út í náttúruna og mála eina mynd. Flýg drónanum og anda að mér tæra loftinu. Hugsa með þakklæti hvað ég er heppinn að geta notið þessa fagra lands svona. Hvað við þurftum að berjast fyrir þessu og allt sem ég fór í gegnum til að komast á þennan stað og þetta tímabil. Já, þetta var lengi mjög erfitt, að lamast var frekar mikið leiðinlegt. En þetta kenndi mér mikið. Hvernig maður getur verið nánast alltaf glaður að vera á lífi, að lifa með voninni.
Ég ætla að deila þessu á Facebook núna þegar ég er búinn að skrifa þetta, sjá hvort ég fái einhver viðbrögð. Annars er ég að þessu bara fyrir mig, æfa mig að skrifa, sem verður kannski gaman fyrir mig að lesa eftir 30 ár. Það er líka hvati fyrir mig að gera lífið skemmtilegra og áhugaverðara.
Ef þið hafið eitthvað að spyrja þá er það velkomið. Ég lofa ekki að svara, en skal reyna.
Samhliða þessu er ég að stýra verkefni í Nepal. Fyrsti hluti þess er að skipuleggja viðburð eins og þá sem ég gerði þegar ég var þarna. Mætti og byrjaði að mála með munninum á fjölförnum fallegum torgum. Réði hjálpara sem buðu áhugasömum vegfarendum að mála með mér. Svo fylgdist ég með fólkinu njóta þess að gleyma áhyggjum sínum og detta í skapandi flæði. Ríkir og fátækir, fjölskyldur og munaðarleysingjar, ungir og aldnir, kraftmikil upplifun.
Planið er að í staðinn fyrir mig, þá bjóða fötluðum nepölskum listamönnum að bjóða með sér í listsköpun. Svo verða valin verk til að hafa á sýningu sem byrjar úti í Kathmandu en ferðast svo heim til Íslands. Meira um það seinna.
https://youtube.com/watch?v=h_QLZtGB7DU
Ég er líka í samtali við framleiðanda á Indlandi til að skoða möguleikann að gera ferðaseríu um mig að rúlla um þar, skoða landið og hitta ayurvedíska iðkendur og aðra heilara.
Svo er Ýmir frændi með sýningu 8. maí í Portfolio-galleríinu. Hann er einn eftirsóttasti og hæfileikaríkasti núlifandi listamaður í Evrópu. Selur allt sem hann gerir. Stoltur af honum.
Hmm, eitthvað í lokin…
Hvað ætti ég að enda með?...
…
Margt sem mér dettur í hug.
….
Forsetakosningar: feginn að ég fór ekki í framboð.
Hvalveiðar og sjóeldi: á móti þeim.
Bjartsýnn um framtíð mannkyns: já já, en þetta verður krefjandi. Ég er techno-optimisti, trúi að tækni og vísindi muni bjarga okkur.
Ok, nóg í bili.
Sjáumst á förnum vegi.